Ræktun

Hvað þarf að vita fyrir ræktun.

Það mikilvægasta sem ræktandi þarf að þekkja fyrir pörun er ræktunarmarkmiðið fyrir sína tegund. Í ræktunarmarkmiðinu er tekið fyrir lið fyrir lið að hverju ræktandinn á að stefna. Þar er fjallað um almennt útlit hundsins, hvernig hann á að vera byggður, hvernig feldurinn á að vera, hvernig hreyfingar hundsins eiga að vera og ekki síst skapgerð og lund. Enginn hundur er fullkominn og þar af leiðandi er gott að fá sérfræðinga til að segja okkur hversu vel hundurinn okkar uppfyllir markmiðið. Það er gert með því að sýna hundinn á hundasýningum. Dómarar á sýningunum þekkja ræktunarmarkmiðið fyrir tegundina mjög vel og þeir skrifa umsagnir um hundana þar sem tilgreint er hvað er eins og markmiðið segir til um og hvað má betur fara. Eftir að hafa sýnt hundinn á 2-3 sýningum þá hefur maður nokkuð góða hugmynd um hvað má betur fara í áframhaldandi ræktun undan hundinum. Þá er hægt að finna hund af gagnstæðu kyni sem hefur kostina þar sem þinn hundur hefur gallana og vona að hvolparnir erfi góðu kostina frá báðum foreldrum.

Hvenær á pörun að fara fram?

Tíðarhringurinnhjá tíkum er misjafn en flestar lóða tvisvar á ári. Lóðaríið byrjar á blæðingum í ca. 10 daga en næstu 10 daga á eftir er tíkin frjó. Heppilegast er að tíkin og rakkinn hittist á 10.-14. degi og þá með tveggja daga millibili ef það er hægt að koma því við. Ef þú ert ekki viss um að tíkin sé á réttum degi þá getur rakkinn sagt til um það! Hundar parast ekki að óþörfu og þeir nota lyktarskynið til að vita hvenær hormónarnir eru í hámarki. Eftir pörun er tíkin og karlhundurinn föst saman í 15-20 mínútur og á þeim tíma borgar sig að halda tíkinni rólegri.

Hundar þurfa vissan þroska áður en ræktun fer fram.

Ekki er æskilegt að tíkur séu notaðar í ræktun fyrir 2 ára aldur en samkvæmt reglum verða tíkur að hafa náð 24 mánaða aldri fyrir pörun.  Þegar rækta á undan tík sem er orðin 7 ára þarf dýralæknir að gefa út vottorð fyrir pörun þess efnis að hún hafi líkamlega burði til að þola álagið sem fylgir meðgöngunni og fæðingunni.

Erfðagallar.

Í sumum hundategundum eru til staðar einhverjir erfðagallar sem eru misalvarlegir. Ábyrgir ræktendur ganga úr skugga um að þeir hundar sem þeir nota til ræktunar séu ekki með þekkta galla eins og hnéskeljalos, mjaðmalos eða arfgenga augnsjúkdóma áður en pörun fer fram.