Feldhirða

Silkifeldur.

Silkifeldur er sléttur, gljáandi, síður feldur sem liggur niður með hliðum hundsins. Silkifeldur flækist lítið en sumir hundar hafa ullarkenndan feld og þá myndast flókar í feldinum sem þarf að greiða úr. Ef burstað er yfir feldinn daglega þá tekur feldhirðan ekki nema nokkrar mínútur. Feldurinn vex mishratt á milli hunda en við tveggja ára aldur er feldurinn yfirleitt kominn í fulla sídd. Sídd feldsins má ekki vera það mikil að hún hamli athöfnum hundsins og dagsbirta á alltaf að sjást undir hundinum. Liturinn á feldinum er gráblár en í andliti, bringu og á fótum eru hárin brún. Kollurinn er ýmist ljósbrúnn eða grábrúnn.

Áhöld.

Til að halda feldinum fallegum og flókalausum þá þarf að greiða hundinum daglega. Þau áhöld sem eru notuð eru bursti, kambur og stálgreiða. Burstinn er með svörtum nylon hárum og inn á milli eru hvítir nylon tindar. Það eru til nokkrar tegundir og stærðir og gæðin eru oftast í réttu hlutfalli við verðið. Kamburinn er með mörgum litlum vírhárum og dugar mjög vel til að greiða úr flókum í feldinum. Ókosturinn við kambinn er að hann á það til að slíta hárin og er því yfirleitt aðeins notaður á flókana. Stálgreiðan er notuð í lokin til að greiða yfir feldinn til að finna alla flóka og er góð í að greiða úr litlum flókum. Sé greitt í gegnum feldinn daglega ætti hann að haldast flókalaus. Hundaföt geta þæft feldinn, sérstaklega flísefni. Því er gott að skoða vel efni sem feldurinn rennur vel eftir því það minnkar flókamyndun.