Forsíða

Silky terrier er mjög orkumikill hundur. Þeir eru með terrier eðlið í sér og þar af leiðandi eru þeir bráðgáfaðir og þurfa mikla athygli. Þeir fylgjast mjög vel með öllu og láta ókunn hljóð ekki framhjá sér fara. Þeir eru oft þrjóskir en eru tilbúnir til að gera hvað sem er fyrir athygli þína og aðdáun. Silky terrier vill vera miðpunktur alheimsins og unir sér best innan um fjölskylduna sína og tekur virkan þátt í heimilishaldinu.

Líkamsburðir og umhirða

Líkamsburðir Silky terrier.

Silky terrier vega um 4-5 kg (karlhundar almennt þyngri en tíkur) og eru um 23-26 cm á hæð við herðablöðin. Silky terrier virkar sterklega byggður hundur og virkar ekki viðkvæmur á neinn hátt. Þeir hafa einfaldan feld með löngum hárum, ekki ósvipuðum mannshárum. Hárin eru glábláleit á búknum en brún á andliti, fótum og eyrum. Kollurinn er oftast í ljósari brúnum lit.

Feldurinn er síður en þó ekki það löng að hundurinn dragi þau eftir jörðinni. Hárin á eyrum og fótum eiga að vera snögg. Allur feldurinn á að vera mjúkur eins og silki en þó ekki of mjúkur/ullarlegur né of stífur.

Umhirða á Silky terrier.

Feldurinn þarfnast ekki mikils tilstands. Sýningarhundar eru baðaðir á 2-4 vikna fresti með sjampói og hárnæringu og þess á milli er feldurinn greiddur með góðum hárbursta. Ágætt er að klippa neglurnar vikulega. Snyrtið örlítið hárin á fótum og eyrum og hárin á skottinu eiga að vera um 2,5-3 cm á lengd. Það getur tekið 12-18 mánuði fyrir feld að ná réttri lengd fyrir hundasýningar.

Þegar hundar eru ekki í sýningum er feldurinn ýmist klipptur stuttur eða rakaður í 2,5-3 cm lengd.

Ræktun

Hvað þarf að vita fyrir ræktun.

Það mikilvægasta sem ræktandi þarf að þekkja fyrir pörun er ræktunarmarkmiðið fyrir sína tegund. Í ræktunarmarkmiðinu er tekið fyrir lið fyrir lið að hverju ræktandinn á að stefna. Þar er fjallað um almennt útlit hundsins, hvernig hann á að vera byggður, hvernig feldurinn á að vera, hvernig hreyfingar hundsins eiga að vera og ekki síst skapgerð og lund. Enginn hundur er fullkominn og þar af leiðandi er gott að fá sérfræðinga til að segja okkur hversu vel hundurinn okkar uppfyllir markmiðið. Það er gert með því að sýna hundinn á hundasýningum. Dómarar á sýningunum þekkja ræktunarmarkmiðið fyrir tegundina mjög vel og þeir skrifa umsagnir um hundana þar sem tilgreint er hvað er eins og markmiðið segir til um og hvað má betur fara. Eftir að hafa sýnt hundinn á 2-3 sýningum þá hefur maður nokkuð góða hugmynd um hvað má betur fara í áframhaldandi ræktun undan hundinum. Þá er hægt að finna hund af gagnstæðu kyni sem hefur kostina þar sem þinn hundur hefur gallana og vona að hvolparnir erfi góðu kostina frá báðum foreldrum.

Hvenær á pörun að fara fram?

Tíðarhringurinnhjá tíkum er misjafn en flestar lóða tvisvar á ári. Lóðaríið byrjar á blæðingum í ca. 10 daga en næstu 10 daga á eftir er tíkin frjó. Heppilegast er að tíkin og rakkinn hittist á 10.-14. degi og þá með tveggja daga millibili ef það er hægt að koma því við. Ef þú ert ekki viss um að tíkin sé á réttum degi þá getur rakkinn sagt til um það! Hundar parast ekki að óþörfu og þeir nota lyktarskynið til að vita hvenær hormónarnir eru í hámarki. Eftir pörun er tíkin og karlhundurinn föst saman í 15-20 mínútur og á þeim tíma borgar sig að halda tíkinni rólegri.

Hundar þurfa vissan þroska áður en ræktun fer fram.

Ekki er æskilegt að tíkur séu notaðar í ræktun fyrir 2 ára aldur en samkvæmt reglum verða tíkur að hafa náð 24 mánaða aldri fyrir pörun.  Þegar rækta á undan tík sem er orðin 7 ára þarf dýralæknir að gefa út vottorð fyrir pörun þess efnis að hún hafi líkamlega burði til að þola álagið sem fylgir meðgöngunni og fæðingunni.

Erfðagallar.

Í sumum hundategundum eru til staðar einhverjir erfðagallar sem eru misalvarlegir. Ábyrgir ræktendur ganga úr skugga um að þeir hundar sem þeir nota til ræktunar séu ekki með þekkta galla eins og hnéskeljalos, mjaðmalos eða arfgenga augnsjúkdóma áður en pörun fer fram.

Feldhirða

Silkifeldur.

Silkifeldur er sléttur, gljáandi, síður feldur sem liggur niður með hliðum hundsins. Silkifeldur flækist lítið en sumir hundar hafa ullarkenndan feld og þá myndast flókar í feldinum sem þarf að greiða úr. Ef burstað er yfir feldinn daglega þá tekur feldhirðan ekki nema nokkrar mínútur. Feldurinn vex mishratt á milli hunda en við tveggja ára aldur er feldurinn yfirleitt kominn í fulla sídd. Sídd feldsins má ekki vera það mikil að hún hamli athöfnum hundsins og dagsbirta á alltaf að sjást undir hundinum. Liturinn á feldinum er gráblár en í andliti, bringu og á fótum eru hárin brún. Kollurinn er ýmist ljósbrúnn eða grábrúnn.

Áhöld.

Til að halda feldinum fallegum og flókalausum þá þarf að greiða hundinum daglega. Þau áhöld sem eru notuð eru bursti, kambur og stálgreiða. Burstinn er með svörtum nylon hárum og inn á milli eru hvítir nylon tindar. Það eru til nokkrar tegundir og stærðir og gæðin eru oftast í réttu hlutfalli við verðið. Kamburinn er með mörgum litlum vírhárum og dugar mjög vel til að greiða úr flókum í feldinum. Ókosturinn við kambinn er að hann á það til að slíta hárin og er því yfirleitt aðeins notaður á flókana. Stálgreiðan er notuð í lokin til að greiða yfir feldinn til að finna alla flóka og er góð í að greiða úr litlum flókum. Sé greitt í gegnum feldinn daglega ætti hann að haldast flókalaus. Hundaföt geta þæft feldinn, sérstaklega flísefni. Því er gott að skoða vel efni sem feldurinn rennur vel eftir því það minnkar flókamyndun.

Hafðu samband

Ef þú hefur áhuga á tegundinni eða ert með spurningar þá er best að kíkja inn á Facebook síðu tegundarinnar.

Einnig er hægt að hafa samband við tengilið tegundarinnar hjá HRFÍ sem er Rhonica Rae Reynisson Doyle

Ræktendur:

Umsjón með þessari vefsíðu hefur Þorsteinn Kristinsson © 2001-2022